Fara á efnissvæði
EN Innskráning 0

Viðskiptaskilmálar

2. Gildissvið og skilgreiningar: 

Skilmálar þessir gilda bæði vegna leigu og sölu á  búnaði frá Luxor tækjaleigu kt. 710811-1130, hér eftir nefnt Luxor. Búnaður í þessum skilmálum merkir hverskonar tækjabúnað  sem til sölu eða leigu er hjá Luxor. Um kaup á búnaði frá Luxor gilda lög um lausafjárkaup. Mál sem kunna að rísa vegna þessara skilmála skal höfða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. 

2.0 Söluskilmálar: 

2.1 Allur nýr búnaður frá Luxor veitir frá afhendingardegi skráðum kaupanda skv. reikningi eins árs ábyrgð vegna verksmiðju  eða efnisgalla. Sé um galla að ræða framkvæmir Luxor allar nauðsynlegar viðgerðir á búnaðnum kaupanda að kostnaðarlausu. Ábyrgðin nær eingöngu til þeirra tækja sem tilgreind eru á reikningi en ekki til neins konar afleidds tjóns, hvort sem um er að ræða tapaðra gagna, tíma eða hugsanlegs hagnaðar. Ef kaupandi tilkynnir ekki um galla eða bilun innan eins árs frá viðtökudegi getur hann ekki síðar borið gallann fyrir sig. 

2.2 Ábyrgðarviðgerðir eru framkvæmdar í aðstöðu Luxor að Vesturvör 32B, 200 Kópavog. Sé þess óskað að viðgerð fari fram á notkunarstað skal greitt fyrir ferðatíma og akstur. Sé nauðsynlegt að senda tækið til viðgerðar skal því pakkað samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Sendingarkostnaður er ekki innifalinn í ábyrgð. 

2.3 Ábyrgð skv. 2.1 fellur niður ef: (1) aðrir en starfsmenn Luxor hafa gert við búnaðinn eða gert tilraun til þess, (2) verksmiðjunúmer hefur verið fjarlægt, (3) búnaður hefur verið tengdur við ranga spennu eða straumtegund, (4) um eðlilegt slit er að ræða, (5) um er að ræða notaðan búnað sem keyptur hefur verið af þriðja aðila (6) leiðbeiningum framleiðanda hefur ekki verið fylgt við uppsetningu og notkun, (7) tækið hefur orðið fyrir hnjaski, rangri meðferð, náttúruhamförum, eða truflunum frá raforkukerfi, (8) breytingar hafa verið gerðar á tækinu, (9) viðhaldi hefur ekki verið sinnt. 

2.4 Luxor á eftir atvikum söluveð í seldum búnaði til tryggingar á kaupverði samkvæmt reikningi, vöxtum og kostnaði skv., 35. gr. laga. nr. 75/1997 um samningsveð. Standi kaupandi ekki í skilum með umsamið kaupverð er Luxor heimilt, hvort heldur hann vill láta selja hið veðsetta nauðungarsölu til fullnustu kröfu sinnar eða rifta söluveðsetningunni og krefjast afhendingar hins veðsetta. Áframsala á hinu keypta er seljanda óheimil þar til kaupverð hefur að fullu verið greitt nema með skriflegu samþykki Luxor.  

3.0 Leiguskilmálar: 

3.1 Nema annað sé sérstaklega tekið fram skal stysti leigutími vera einn dagur og miðast upphaf leigu við dagsetningu afhendingar í leigusamningi. Síðasti dagur leigu telst sá dagur sem getið er sem skiladags í leigusamningi. Sé búnaði ekki skilað innan hins umsamda tíma skal leigutaki greiða fulla dagleigu fyrir hvern byrjaðan dag, auk alls kostnaðar sem Luxor kann að verða fyrir vegna þess að búnaðurinn stendur ekki öðrum viðskiptavinum til reiðu á réttum tíma. 

3.2 Leigutaki skal vera lögráða einstaklingur eða eftir atvikum félag eða stofnun. Sá sem skuldbindur félag eða stofnun ábyrgist að hafa til þess fullt umboð og ber að sýna fram á umboð sitt geri Luxor kröfu um slíkt, jafnframt því sem hann tekur persónulega ábyrgð á leigusamningi. Sé að mati Luxor uppi rökstuddu grunur að umboð þess er skuldbindur félag eða stofnun sé ekki gilt, áskilur Luxor sér rétt til að taka fyrirvaralaust, hvenær sem er á leigutímanum í sína vörslu hinn leigða búnað, án allrar bótaskyldu.